Drukkum rauðvín saman en tölum nú í gegnum lögfræðinga

Sepp Blatter á fimm ár eftir í banni frá fótbolta.
Sepp Blatter á fimm ár eftir í banni frá fótbolta. AFP

Sepp Blatter, fyrrverandi forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, segir hinn nýja forseta, Gianni Infantino, sýna sér vanvirðingu.

Blatter er í banni frá fótbolta fram í október 2021 vegna spillingarmáls, en hann sá til þess að Michel Platini, fyrrverandi forseti UEFA, fengi andvirði 2 milljóna Bandaríkjadala sem ekki fengust haldbærar skýringar á að hann ætti skilið. Vegna þessa hneykslismáls lauk 17 ára valdatíð Blatters og Infantino var kjörinn forseti FIFA í febrúar á þessu ári.

„Ég hef aldrei séð það hjá neinu fyrirtæki að nýi forsetinn sýni þeim gamla ekki virðingu,“ sagði Blatter við BBC.

„Eftir að hann [Infantino] var kosinn áttum við mjög góðan fund, hann heimsótti mig og við spjölluðum saman og fengum okkur rauðvínsglas. Ég sagðist vera með lista yfir mál sem þyrfti að leysa hjá FIFA,“ sagði Blatter.

„Hann sagðist ætla að vinna í því, en hann kom aldrei aftur. Ég hef spurt hann, sent honum bréf og er með símanúmerið hans, sem mér hefur verið sagt að sé rétta númerið. Ég hef sent honum tölvupósta. Hann svarar hins vegar aldrei. Núna tölum við bara saman í gegnum lögfræðinga,“ sagði Blatter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert