Ellefu eftir í hópnum

Hólmfríður Magnúsdóttir var algjör lykilmaður í liði Avaldsnes.
Hólmfríður Magnúsdóttir var algjör lykilmaður í liði Avaldsnes. mbl.is/Eggert

„Við erum margar á förum,“ sagði Hólmfríður Magnúsdóttir við Morgunblaðið eftir að hún ákvað að yfirgefa norska knattspyrnufélagið Avaldsnes. Hólmfríður hafði svo sannarlega rétt fyrir sér og þetta silfurlið nýafstaðinnar leiktíðar nær nú varla að mynda byrjunarlið.

TV2 segir frá því að aðeins ellefu leikmenn séu nú eftir í leikmannahópi Avaldsnes. Félagið hefur verið duglegt við að fá meðal annars íslenska leikmenn og voru Hólmfríður og Þórunn Helga Jónsdóttir á mála hjá félaginu á síðustu leiktíð en þær eru báðar farnar í KR.

Sex leikmenn til viðbótar eru horfnir á brott, þar á meðal fyrirliðinn Maren Mjelde sem fór til Chelsea og Hege Hansen sem fór til Klepp.

„Við höfum ekki áhyggjur af þessu. Við erum að vinna í því að fá inn nýja leikmenn,“ sagði Lars Inge Vatnem, stjórnarformaður hjá Avaldsnes, sem segir markmiðið vera að landa meistaratitli á næsta ári.

Hólmfríður sagði við Morgunblaðið í síðasta mánuði að helsti bakhjarl liðsins og eigandi væri hættur og það myndi hafa miklar afleiðingar.

„Ég hef hugsað um það í dágóðan tíma að þetta væri orðið gott hjá mér í þessu félagi. Ég er búin að vera hérna lengi og finnst ég þurfa breytingu. Svo er eigandinn nú hættur, maðurinn sem hefur styrkt félagið fjárhagslega síðustu ár, og þá vissi ég alveg hvað væri að fara að gerast hjá þessu félagi. Það getur ekki verið eins sterkt á komandi árum, og ég er ekki eini leikmaðurinn sem var að spila síðasta leikinn með þessu liði,“ sagði Hólmfríður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert