Guardiola líst illa á hugmynd Infantino

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hefur aðra sýn á þróun …
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hefur aðra sýn á þróun knattspyrnunnar en Gianni Infantino, forseti FIFA. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, er ekkert sérstaklega hrifinn af hugmynd Gianni Infantino, forseta FIFA, þess efnis að fjölga þátttökuþjóðum á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu karla úr 32 þjóðum í 48 þjóðir.

„Það er allt of mikið álag á bestu leikmönnum heims eins og staðan er núna og verði þessi hugmynd að veruleika mun álagið aukast. Þetta mun gera það að verkum að leikmenn verða örmagna og geta ekki leikið af fullum krafti. Við ættum að hugsa um gæði leikja frekar en magn þeirra að mínu mati,“ sagði Guardiola um hugmynd Infantino.

„Við ættum frekar að minnka álag á leikmönnum með því að fjölga þeim skiptingum sem leyfðar eru í hverjum leik í fjórar, fimm eða jafnvel sex. Með því móti gætum við hvílt lúna leikmenn auk þess sem mögulegt væri að nota fleiri leikkerfi í hverjum leik sem væri til bóta að mínu viti,“ sagði Guardiola enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert