Myndum íhuga „bilað tilboð“

Javier Hernández á æfingu með Leverkusen.
Javier Hernández á æfingu með Leverkusen. AFP

Rudi Völler, fyrrverandi markaskorari þýska landsliðsins í knattspyrnu og núverandi íþróttastjóri Bayer Leverkusen, segir að það sé ekki inni í myndinni að selja mexíkóska framherjann Javier „Chicarito“ Hernández.

Hernández hefur ekki náð að skora í síðustu 15 leikjum sínum með liðinu, í rúma 100 daga, og vangaveltur um að hann sé á förum frá Leverkusen núna í janúar hafa aukist að undanförnu.

Sjálfur segist Mexíkóinn vilja vera í röðum félagsins til næsta sumars, í það minnsta, en þá mun hann eiga ár eftir af samningi sínum.

Völler segir að það sé ekki inni í myndinni að selja hann, nema þá að það bærist mögulega „bilað tilboð“ í hann.

„Ég er viss um að hann mun leika mjög vel í seinni umferðinni og við þurfum á honum að halda til að ná markmiðum okkar. Það er ekki á stefnuskránni að hann fari, enda er mjög erfitt að finna viðunandi eftirmann í janúarmánuði. En auðvitað yrðum við í það minnsta að hugsa málið ef „bilað tilboð“ myndi berast,“ sagði Völler við ESPN.

Þá berast böndin að kínversku úrvalsdeildinni en Hernández hefur sagt að hann hafi ekki mikinn áhuga á að fara þangað og myndi miklu heldur velja að fara í bandarísku MLS-deildina, ef hann færi frá Leverkusen. Hann hefur hins vegar lýst yfir hollustu við Leverkusen og kveðst helst vilja vera þar sem lengst.

Leverkusen er í 9. sæti þýsku Bundesligunnar þegar sextán umferðum af 34 er lokið en keppni eftir vetrarfríið hefst á ný um næstu helgi þegar Leverkusen fær Herthu Berlín í heimsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert