MSN-þrenna en Busquets meiddist

Börsungar fagna einu fjögurra marka sinna í kvöld.
Börsungar fagna einu fjögurra marka sinna í kvöld. AFP

Barcelona vann öruggan sigur á Eibar, 4:0, á útivelli í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Börsungar urðu reyndar fyrir áfalli á 10. mínútu leiksins þegar Sergio Busquets fór af velli eftir að hafa meiðst í ökkla. Það ætti að koma í ljós á morgun hve alvarleg meiðslin eru.

Denis Suárez, sem hafði komið inn á fyrir Busquets, skoraði fyrsta mark leiksins eftir hálftíma leik. Í seinni hálfleik var það hins vegar MSN-tríóið sem sá um mörkin. Lionel Messi skoraði fyrst, þá Luis Suárez og loks Neymar sem skoraði í uppbótartíma.

Barcelona er með 41 stig í 3. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Real Madrid og einu stigi á eftir Sevilla. Real á leik til góða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert