Staðfestir kynþáttaníð í garð Balotelli

Mario Balotelli.
Mario Balotelli. AFP

Mario Balotelli, framherji Nice í Frakklandi, birti á Instagram-síðu sinni fullyrðingu þess efnis að hann hafi orðið fyrir kynþáttafordómum frá stuðningsmönnum Bastia í 1:1-jafntefli liðanna í frönsku 1. deildinni á dögunum.

Liðsfélagi hans Alassane Plea hefur staðfest að hann hafi heyrt það sama og Balotelli vakti athygli á, en forráðamenn Bastia höfðu áður gefið út yfirlýsingu þar sem þeir þvertóku fyrir allt slíkt.

„Við heyrðum áhorfendur líkja eftir apa í upphitun og á meðan leikurinn stóð yfir. Nokkrir stuðningsmenn voru að níðast á honum allan leikinn. Þetta hafði mjög mjög mikil áhrif á Balotelli,“ sagði Plea.

Franska knattspyrnusambandið ætlar að fara ofan í saumana á málinu, en engin skýrsla um kynþáttaníð kom frá dómara eða eftirlitsmönnum á leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert