Granada bætir í hópinn

Adrián Ramos sækir að markverði Kölnar í leik með Dortmund …
Adrián Ramos sækir að markverði Kölnar í leik með Dortmund í vetur. AFP

Spænska knattspyrnufélagið Granada, sem keypti Sverri Inga Ingason af Lokeren í Belgíu í síðustu viku, heldur áfram að styrkja sig fyrir baráttuna seinni hluta tímabilsins.

Í dag gekk félagið frá lánssamningi við Borussia Dortmund í Þýskalandi um að fá kólumbíska framherjann Adrián Ramos út þetta keppnistímabil og hann mætti á sína fyrstu æfingu með Sverri og félögum í morgun.

Ramos er 31 árs og hefur spilað með Dortmund í hálft þriðja ár þar sem hann hefur gert 13 mörk í 52 leikjum í Bundesligunni, og auk þess fjögur mörk í Meistaradeild Evrópu. Hann lék áður með Herthu Berlín í fimm ár og gerði þar 58 mörk í 157 deildaleikjum. Þá hefur Ramos skorað 4 mörk í 36 landsleikjum fyrir Kólumbíu.

Þar með hefur Granada náð í þrjá nýja leikmenn á nokkrum dögum en fyrir helgina kom gríski landsliðsmaðurinn Panagiotis Kone til félagsins frá Udinese. Ekki veitir af liðsaukanum því Granada er næstneðst í spænsku 1. deildinni og hefur aðeins unnið einn af nítján leikjum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert