Fær mikið hrós frá Solskjær (myndskeið)

Björn Bergmann í leiknum í gær.
Björn Bergmann í leiknum í gær. Ljósmynd/moldefk.no

Ole Gunnar Solskjær, þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Molde, er ánægður með að framherjinn Björn Bergmann Sigurðsson er kominn á ferðina með liði sínu eftir meiðsli.

Björn Bergmann lék sinn fyrsta leik með Molde á árinu í gær og ekki er hægt að segja annað en að Skagamaðurinn hávaxni hafi byrjað vel en hann skoraði tvö af mörkum Molde í stórsigri gegn Hödd, 8:0. Björn lék seinni hálfleikinn og skoraði sjötta og áttunda mark sinna manna en Óttar Magnús Karlsson sem lék fyrstu 69 mínúturnar tókst ekki að skora að þessu sinni en hann hefur skorað í tveimur leikjum Molde á undirbúningstímabilinu.

Sjá mörkin úr leiknum

„Það er virkilega gott að vera kominn til baka og vera alveg meiðslalaus. Það að fá nokkrar mínútur á stórum velli var gott. Ég spilaði tvo leiki með Íslandi í janúar en það hefur verið barátta að koma sér í form eftir það. Ég hef unnið hörðum höndum að koma mér í stand og nú fæ ég tíma til að koma mér í toppform áður en tímabilið hefst,“ segir Björn á vef Molde.

,,Björn er mjög mikilvægur fyrir okkur sem lið, bæði innan sem utan vallar. Sú staðreynd að hann er kominn aftur á ferðina mun veita stuðningsmönnum okkar mikla gleði á komandi tímabili. Það var gott að sjá hann skora tvö mörk í þessum leik og í góðu formi er hann  besti leikmaðurinn í deildinni,“ segir Solskjær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert