Viðar Örn: Engin tilboð komið

Viðar Örn Kjartansson í leik með Maccabi Tel Aviv.
Viðar Örn Kjartansson í leik með Maccabi Tel Aviv. AFP

Viðar Örn Kjartansson, leikmaður Maccabi Tel Aviv í Ísrael, segist ekki vita til þess að tilboð hafi borist í sig eins og fjallað hefur verið um í íslenskum miðlum í dag.

Vísir greindi frá því að rússneska félagið Zenit frá Pétursborg hefði virkjað klásúlu í samningi Viðars í Ísrael og boðið 9 milljónir evra í Selfyssinginn, eða um milljarð íslenskra króna.

„Ég hef ekkert heyrt um þetta og eftir því sem ég best veit hafa engin tilboð komið,“ sagði Viðar Örn við mbl.is í kvöld.

„Ég hef ekkert heyrt um það sem stendur í blöðunum í dag. Ég er á fullu að einbeita mér að komandi vikum með liðinu og ég er ekki mikið að spá í öðru,“ sagði Viðar Örn við mbl.is.

Viðar Örn hefur farið á kostum í ísraelsku úrvalsdeildinni, er markahæsti maður deildarinnar með 15 mörk og hefur skorað fjórum mörkum meira en sá sem næst kemur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert