Tekur tíma að venjast þessu

Birkir Bjarnason með Villa-treyjuna.
Birkir Bjarnason með Villa-treyjuna. Ljósmynd/Twitter

Landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason hafði vistaskipti í síðasta mánuði þegar hann yfirgaf svissneska meistaraliðið Basel og gekk til liðs við enska B-deildarliðið Aston Villa.

Birkir hefur spilað sex leiki með liðinu og hann fagnaði sínum fyrsta sigri með því á laugardaginn þegar Aston Villa lagði Derby að velli, 1:0, á Villa Park. Þungi fargi var létt af Birki og liðsfélögum hans og ekki síst af knattspyrnustjóranum Steve Bruce en fyrir leikinn á móti Derby hafði Aston Villa ekki unnið leik í deildinni á árinu.

„Mér hefur bara gengið nokkuð vel persónulega að fóta mig í deildinni og loksins tókst okkur að vinna leik. Við vorum búnir að tapa fimm leikjum í röð en í nokkrum leikjanna áttum alls ekki skilið að tapa. Það var kominn tími á sigur og vonandi náum við að komast á skrið,“ sagði Birkir í samtali við mbl.is en Aston Villa tekur á móti Bristol City í deildinni í kvöld en með því liði leikur landsliðsmaðurinn Hörður Björgvin Magnússon.

„Nú er bara markmiðið hjá okkur að reyna að klifra upp töfluna og hver sigur er dýrmætur. Það er enginn lengur að spá í að komast í umspilið enda erum við ansi langt frá því. Við eigum ekki að vera á þeim stað sem við erum miðað við gæðin í liðinu en markmiðið er að enda tímabilið vel og koma svo sterkur til leiks á næsta tímabili,“ sagði Birkir en hann vissi ekki hvort hann yrði í byrjunarliðinu í kvöld en hann lék síðasta stundarfjórðunginn í sigrinum á móti Derby. „Það tekur tíma að venjast því að spila í þessari deild og þeim fótbolta sem er spilaður í henni og aðlagast nýju landi,“ sagði Birkir sem á eftir að opna markareikning sinn með Aston Villa.

„Ég verð að fara að skora og það styttist í það. Ég er búinn að fá nokkur góð færi eins og í leiknum á móti Newcastle en þetta hefur ekki dottið inn hjá mér. Í seinna færinu á móti Newcastle gerði markvörður þeirra ansi vel þegar hann varði frá mér.“

Hvernig kemur knattspyrnustjórinn Steve Bruce þér fyrir sjónir?

„Bara mjög vel. Þetta er frábær karl og hann hefur sýnt hvað hann getur sem þjálfari. Það var komin pressa á hann fyrir síðasta leik en ég vona að fólk geri sér grein fyrir því að þetta gengi liðsins er ekki bara honum að kenna. Við leikmenn verðum líka að axla okkar ábyrgð,“ segir Birkir en Aston Villa er í 17. sæti af 24 liðum í deildinni.

Mikil keyrsla og álag

Eftir að hafa spilað með Basel frá árinu 2015 og þar á undan á Ítalíu og í Belgíu var Birkir spurður að því hvort það værumikil viðbrigði að spila í B-deildinni á Englandi?

„Þetta er talsvert öðruvísi. Ég var hjá besta félaginu í Sviss þar sem við höfðum mikla yfirburði í deildinni. Þar vorum við alltaf meira með boltann heldur en andstæðingarnir en fótboltinn í þessari deild er spilaður svolítið öðruvísi. Ég er kannski vanur meira spili en við í Aston Villa erum ekkert að spila ólíkt íslenska landsliðinu. Það er mikil keyrsla og álag í deildinni enda yfirleitt tveir leikir á viku en það er svo sem ekkert nýtt fyrir mér. Hjá Basel vorum í Meistaradeildinni, deildinni og í bikarkeppninni svo við vorum oft að spila tvo leiki í viku,“ sagði Birkir.

Birkir Bjarnason.
Birkir Bjarnason. Ljósmynd/www.avfc.co.uk

 Er eitthvað sem hefur komið þá á óvart eftir þessi félagaskipti?

„Já, ég verð að segja að það kom mér á óvart hversu flottur klúbbur Aston Villa er. Aðstaðan sem félagið er með er alveg til fyrirmyndar og allt í kringum félagið er flott. Þeir segja að það séu kannski bara fjögur til fimm lið í úrvalsdeildinni sem eru með betri aðstæður en Aston Villa,“ segir Birkir, sem býr enn á hóteli í Birmingham. „Ég fæ vonandi íbúð fljótlega en ég kann vel mig í borginni. Þetta er stór borg og það er stutt í allar áttir eins og til London og Manchester. Þetta er mjög fínn staður.“

Birkir segist aðeins farinn að hugsa um leikinn á móti Kósóvó í undankeppni HM en Íslendingar mæta Kósóvum í Albaníu 24. mars.

„Það er alltaf gaman að fara í landsleiki og komast aðeins í burtu frá sínu félagsliði. Við viljum gera allt til þess að halda áfram þessu góða gengi sem hefur verið hjá okkur undanfarin ár og ef við ætlum okkur að komast á HM þá verðum við að vinna lið eins og Kósóvó. Það er eitthvað um meiðsli hjá okkur en breiddin er góð og vonandi náum við að landa þremur stigum í Albaníu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert