Messi hetjan og brasilísk þrenna

Lionel Messi fagnar sigurmarki sínu fyrir Argentínu í nótt.
Lionel Messi fagnar sigurmarki sínu fyrir Argentínu í nótt. AFP

Það var heil umferð á dagskrá í nótt í undankeppni Suður-Ameríkuliða fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem fram fer í Rússlandi á næsta ári.

Tíu lið Suður-Ameríku eru saman í einum riðli sem spilaður er eins og deildarkeppni. Brasilía er á toppnum með 30 stig að loknum 13 leikjum, en liðið lagði Úrúgvæ á útivelli í toppslag. Edison Cavani kom Úrúgvæ yfir í leiknum, en mark frá Neymar og þrenna frá Paulinho, fyrrverandi leikmanni Tottenham, tryggði Brasilíu 4:1-sigur.

Þá var Lionel Messi hetja Argentínu sem vann Síle, 1:0. Um gríðarlega mikilvægan leik var að ræða fyrir Argentínu, sem var í sjötta sætinu fyrir leikinn, stigi á eftir Síle. Sigurinn fleytti Argentínu hins vegar upp í þriðja sæti riðilsins með 22 stig, stigi á eftir Úrúgvæ.

Í fjórða sæti er Kólumbía með 21 stig, en James Rodríguez, leikmaður Real Madrid, tryggði sínum mönnum 1:0 sigur á Bólivíu. Ekvador er í fimmta sætinu með 20 stig en tapaði fyrir Paragvæ, 2:1, sem er í sjöunda sætinu. Þá gerðu botnlið Venesúela og Perú 2:2 jafntefli.

Fjögur efstu liðin tryggja sér sæti á HM og liðið í fimmta sæti fer í umspil við sigurþjóðina í undankeppninni í Eyjaálfu.

Staðan: Brasilía 30, Úrúgvæ 23, Argentína 22, Kólumbía 21, Ekvador 20, Síle 20, Paragvæ 18, Perú 15, Bólivía 7, Venesúela 6.

Paulinho, fyrir miðju, fagnar einu af þremur mörkum sínum í …
Paulinho, fyrir miðju, fagnar einu af þremur mörkum sínum í nótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert