Lars fær falleinkunn fyrir fyrsta leik

Lars Lagerbäck á blaðamannafundinum þegar hann var kynntur til leiks …
Lars Lagerbäck á blaðamannafundinum þegar hann var kynntur til leiks sem þjálfari norska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Ljósmynd/fotball.no

Lars Lagerbäck fær nokkurn skerf af gagnrýni í umfjöllun norskra fjölmiðla eftir slæma byrjun hans í starfi sem þjálfari norska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Lars fær líkt og leikmenn hans falleinkunn fyrir frammistöðu sína í tapi liðsins gegn Norður-Írlandi í kvöld. 

Lars fékk fjóra í einkunn fyrir frammistöðu sína í kringum leikinn í kvöld í umfjöllun Verdens Gang um leikinn, en enginn leikmaður fær hærri einkunn en fimm fyrir spilamennsku sína í leiknum í kvöld í umfjölluninni.

„Lars hefur fengið viku til þess að setja svip sinn á liðið og þétta raðirnar í varnarleik liðsins. Leikskipulagið fór út af kortinu eftir einungis eina og hálfa mínútu,“ sagði í umsögn Verdens Gang um frammistöðu Lars. 

„Það verður að setja spurningarmerki við liðsvalið hvað það varðar að hafa Nordtveit inni á miðsvæðinu í staðinn fyrir Berge. Lars verður að fá meiri tíma til þess að koma sínum áherslum á framfæri, en byrjunin var ekki góð,“ sagði enn fremur í umsögninni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert