Van Gaal ræðir við Holland

Louis van Gaal gæti fengið starf innan hollenska knattspyrnusambandsins.
Louis van Gaal gæti fengið starf innan hollenska knattspyrnusambandsins. AFP

Louis van Gaal, fyrrum knattspyrnustjóri Manchester United er í viðræðum við hollenska knattspyrnusambandið, sem vill fá hann til starfa innan sambandsins. Hann mun hins vegar ekki taka við af Danny Blind, sem var rekinn sem þjálfari karlalandsliðsins í síðustu viku. 

Van Gaal hefur ekki þjálfað síðan hann yfirgaf Manchester United, eftir að hafa stýrt þeim til sigurs í enska bikarnum í lok síðustu leiktíðar. Hollendingum hefur gengið mjög illa undanfarið, en þessi mikla knattspyrnuþjóð var ekki á meðal þátttakenda á EM í Frakklandi og nú er sæti á HM í Rússlandi í mikilli hættu. 

Holland er í 4. sæti A-riðils, þrem stigum á eftir Svíum sem er í 2. sæti og sex stigum á eftir Frökkum sem eru á toppnum. Holland er sem stendur á 32. sæti heimslistans, en þjóðin hefur aldrei verið eins neðarlega. 

Holland tapaði fyrir Búlgaríu í undankeppninni um síðustu helgi, 2:0 og fékk Blind reisupassann í kjölfarið. Van Gaal þjálfaði hollenska landsliðið frá 2012 til 2014 og náði hann m.a 3. sæti á HM í Brasilíu 2014. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert