„Var að blóta út í loftið“

Lionel Messi í orðaskiptum við aðstoðardómarann Emerson Augusto de Carvalho.
Lionel Messi í orðaskiptum við aðstoðardómarann Emerson Augusto de Carvalho. AFP

Lionel Messi fyrirliði argentínska landsliðsins í knattspyrnu segist hafa verið að blóta út í loftið og hafi ekki beint blótsyrðum sínum til aðstoðardómarans en Messi var í fyrradag úrskurðaður í fjögurra leikja bann af aganefnd Alþjóða knattspyrnusambandsins.

Messi fékk bannið fyrir orðaskiptin við aðstoðardómarann í viðureign Argentínu og Síle í undankeppni HM í síðustu viku þar sem hann skoraði eina mark leiksins.

Messi fékk að vita af leikbanninu nokkrum klukkutímum fyrir leikinn á móti Bólivíu sem Argentínumenn töpuðu og hann verður fjarri góðu gamni í næstu þremur leikjum Argentínumanna í undankeppninni.

„Ég beinti ekki orðum mínum til aðstoðardómarans. Ég var að bara að blóta við sjálfan mig út í loftið,“ segir Messi en Argentínumenn hyggjast áfrýja úrskurði Alþjóða knattspyrnusambandsins.

Argentínumenn eiga á hættu að komast ekki í úrslitakeppni HM en eftir tapið á móti Bólivíumönnum í fyrrakvöld eru þeir komnir í 5. sæti S-Ameríkuriðilsins. Fjögur efstu liðin tryggja sér farseðilinn á HM í Rússlandi á næsta ári en liðið sem endar í fimmta sæti fer í umspil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert