Tekur Barcelona áhættuna með Neymar?

Neymar, leikmaður Barcelona, daufur í dálkinn eftir að hafa verið …
Neymar, leikmaður Barcelona, daufur í dálkinn eftir að hafa verið vísað af velli með rauðu spjaldi í leik liðsins gegn Malaga. AFP

Áhöld eru um það hvort þriggja leikja bannið sem spænska knattspyrnusambandið úrskurðaði Neymar, leikmann Barcelona, í vegna háttsemi hans eftir að hafa verið vísað af velli með rauðu spjaldi í deildarleik liðsins gegn Malaga á dögunum sé í gildir eður ei.

Neymar hefur nú þegar setið af sér bannið fyrir rauða sjaldið, en á hins vegar eftir að afplána bannið sem spænska knattspyrnusambandið setti hann í fyrir fúkyrðaflaum hans við fjórða dómarann þegar hann labbaði af velli.

Forráðamenn Barcelona áfrýjuðu þriggja leikja banni Neymars til gerðardómstóls íþróttamála á Spáni, en dómarar þess dómstóls munu ekki ná að úrskurða í málinu í tæka tíð fyrir stórleik Barcelona og Real Madrid sem leikinn verður á morgun.

Spænskir fjölmiðlar gera nú að því skóna að forráðamenn Barcelona ætli að meta það svo að þar sem mál Neymars sé enn í áfrýjunarferli þá sé úrskurður spænska knattspyrnusambandsins ekki í gildi.

Nú er spurning hvort forráðamenn Barcelona taki áhættuna á því að láta Neymar spila á morgun.

Áhættan er nokkuð mikil, en Barcelona mun verða úrskurðaður ósigur í leiknum fari það svo að spænska knattspyrnusambandið og siðar gerðarsdómstóll íþróttamála á Spáni verði ekki sammála því mati að úrskurður spænska knattspyrnusambandins um leikbann Neymars hafi fallið úr gildi við áfrýjunina til gerðardómstóls íþróttamála á Spáni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert