Jón Guðni skoraði í sigurleik

Jón Guðni Fjóluson, til hægri, skoraði í dag.
Jón Guðni Fjóluson, til hægri, skoraði í dag. AFP

Jón Guðni Fjóluson skoraði fyrra mark Norrköping í dag þegar liðið vann Häcken á útivelli, 2:1, í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Lið hans var undir í hálfleik en Jón Guðni jafnaði metin á 52. mínútu og Sebastian Andersson skoraði sigurmarkið á 64. mínútu.

Jón lék allan tímann í vörn Norrköping og Guðmundur Þórarinsson kom inn á sem varamaður á 72. mínútu en Alfons Sampsted sat á varamannabekk liðsins allan tímann.

Norrköping hefur þá unnið tvo leiki og tapað tveimur í fyrstu fjórum umferðunum og er sem stendur í 6. sæti deildarinnar með 6 stig.

Hammarby og Sundsvall gerðu 0:0 jafntefli þar sem Ögmundur Kristinsson, Birkir Már Sævarsson og Arnór Smárason léku allan leikinn með Hammarby og Kristinn Steindórsson og Kristinn Freyr Sigurðsson með Sundsvall. Hammarby er með 5 stig og Sundsvall 4 eftir fjórar umferðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert