Þarf handjárn og byssu gegn Messi

Lionel Messi er óstöðvandi.
Lionel Messi er óstöðvandi. AFP

Petar Vasiljevic, knattspyrnustjóri Osasuna, lét ansi óvenjuleg ummæli falla á fréttamannafundi fyrir leik liðsins við Barcelona í spænsku 1. deildinni í kvöld.

Osasuna er á botni deildarinnar en Barcelona á toppnum, en Vasiljevic segir að það þurfi að beita öllum ráðum til þess að stöðva Lionel Messi í leiknum.

„Ég sagði við leikmennina að við þyrftum að hafa áætlun um hvernig ætti að stöðva Messi. Þeir sögðu mér að handjárn og byssa ætti að nægja,“ sagði Vasiljevic. „Hann hverfur kannski í leiknum, en rýkur svo af stað og gerir það sem hann gerir best. Við þurfum að mæta óhræddir í leikinn.“

Messi hefur skorað 31 mark í 29 deildarleikjum í vetur, en Osasuna hefur alls fengið á sig 75 mörk. Þar af skoraði Messi tvö í fyrri viðureign liðanna í vetur, sem Barcelona vann 3:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert