Tveggja leikja bann fyrir fótbrotið

Neil Taylor fær að líta rauða spjaldið eftir tæklinguna.
Neil Taylor fær að líta rauða spjaldið eftir tæklinguna. AFP

Neil Taylor, landsliðsmaður Wales í knattspyrnu og leikmaður Aston Villa, hefur verið úrskurðaður í tveggja leikja bann í undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu fyrir að fótbrjóta Seamus Coleman, fyrirliða Íra, í landsleik þjóðanna í síðasta mánuði.

Taylor fékk að líta rauða spjaldið fyrir tæklinguna, sem leiddi til þess að Coleman þurfti að gangast undir aðgerð og verður frá næstu mánuðina. Taylor mun missa af leikjum Wales gegn Serbíu og Austurríki í undankeppni HM.

Írar eru með jafn mörg stig og Serbía í efstu tveimur sætum D-riðils undankeppninnar, en Wales er í þriðja sæti með fjórum stigum minna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert