Björn skoraði tvisvar framhjá Ingvari

Björn Bergmann í leik með Molde.
Björn Bergmann í leik með Molde. Ljósmynd/moldefk.no

Það voru Íslendingaslagir í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag og þar vantaði ekki fjörið þar sem Íslendingarnir komu mikið við sögu.

Björn Bergmann Sigurðarson skoraði tvívegis fyrir Molde framhjá Ingvari Jónssyni í marki Sandefjord þegar liðin skildu jöfn, 3:3, í hörkuleik. Sandefjord komst yfir, en Björn skoraði tvö mörk með fimm mínútna millibili um miðan síðari hálfleik. Molde var svo 3:2 yfir en Sandefjord jafnaði í 3:3 á sjöttu mínútu uppbótartíma.

Ingvar stóð vaktina í marki Sandefjord sem áður segir og Björn Bergmann spilaði allan leikinn í framlínu Molde. Óttar Magnús Karlsson sat allan tímann á varamannabekk liðsins. Molde er í 5. sæti með 11 stig eftir sex leiki en Sandefjord í 9. sæti með 7 stig.

Aron Sigurðarson lagði svo upp mark Tromsö sem tapaði fyrir Aalesund, 3:1, í öðrum Íslendingaslag. Aron var í byrjunarliðinu en fór af velli á 71. mínútu. Hjá Aalesund spiluðu þeir Daníel Leó Grétarsson og Adam Örn Arnarson allan leikinn en Aron Elís Þrándarson er frá vegna meiðsla.

Aalesund er í 7. sætinu með 8 stig en Tromsö er í 10. sæti með 7 stig.

Þá var Kristinn Jónsson ekki með Sogndal sem tapaði heima fyrir Lilleström, 1:0. Sogndal er á botninum með fjögur stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert