Spyrntu sér vel frá botninum

Sif Atladóttir er í lykilhlutverki í vörn Kristianstad.
Sif Atladóttir er í lykilhlutverki í vörn Kristianstad. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristianstad, lið Sifjar Atladóttur og Elísabetar Gunnarsdóttur, vann í dag sinn fyrsta heimasigur á tímabilinu í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og spyrnti sér um leið hressilega frá botni deildarinnar.

Kristianstad var fyrir leiki dagins í tólfta og neðsta sæti deildarinnar en vann Piteå 1:0 með marki frá Hönnu Sandström og flaug við það upp í áttunda sætið. Sif lék að vanda allan leikinn í vörn Kristianstad en Elísabet þjálfar liðið níunda árið í röð. Kristianstad er með 7 stig eins og Kvarnsveden en fyrir neðan eru Djurgården með 6 stig, Hammarby og Örebro með 5 stig.

Anna Björk Kristjánsdóttir og samherjar hennar í Limhamn Bunkeflo unnu líka dýrmætan sigur, 2:1, á útivelli gegn Hammarby, og eru komnar upp í sjötta sætið en liðið leikur í fyrsta skipti í úrvalsdeildinni.  Limhamn Bunkeflo er með 10 stig.

Hallbera Guðný Gísladóttir lék allan leikinn með Djurgården sem steinlá fyrir Vittsjö, 4:1, en Guðbjörg Gunnarsdóttir var varamarkvörður liðsins í leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert