Sara í góðu færi á að vinna annan titil

Pernille Mosegaard-Harder, Emily van Egmond og Sara Björk Gunnarsdóttir fagna …
Pernille Mosegaard-Harder, Emily van Egmond og Sara Björk Gunnarsdóttir fagna meistaratitlinum um síðustu helgi. Ljósmynd/Twitter-síða Wolfsburg

Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur hennar í Wolfsburg eiga möguleika á morgun að verða tvöfaldir meistarar í þýsku knattspyrnunni en liðið mætir þá liði Sand í bikarúrslitaleik sem fram fer í Köln.

Sara Björk varð á dögunum þýskur meistari með liðinu á sínu fyrsta tímabili með því og hún á góða möguleika á að lyfta öðrum bikar á morgun.

Wolfsburg er talið mun sigurstranglegra liðið því Sand hafnaði í 8. sæti í þýsku deildinni á tímabilinu, 27 stigum á eftir Wolfsburg.

Wolfsburg hefur orðið bikarmeistari tvö ár í röð og í þrjú skipti alls en liðið vann bikarinn fyrst árið 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert