Lifandi goðsögn kveður sviðið

Francesco Totti leikur sinn síðasta leik fyrir Roma í dag.
Francesco Totti leikur sinn síðasta leik fyrir Roma í dag. AFP

Það verður án efa tilfinningaþrungin stund þegar Francesco Totti, sem er í guðatölu í Róm, leikur sinn síðasta leik fyrir Roma þegar liðið mætir Genoa í lokaumferð ítölsku efstu deildarinnar í knattspyrnu karla síðdegis í dag. 

Luciano Spalletti, þjálfari Roma, hefur staðfest að Totti muni vera í mikilvægu hlutverki í leiknum. Totti sem er orðinn 40 ára gamall hefur leikið 27 leiki á yfirstandandi leiktíð, en hann hefur hins vegar aðeins sex sinnum verið í byrjunarliði liðsins.

Totti hefur leikið 785 leiki fyrir Roma og skorað í þeim leikjum 307 mörk, en hann hefur allan sinn feril leikið fyrir Rómverja og spilað með liðinu í 25 leiktíðir. Talið er að Totti muni taka við stöðu yfirmanns knattspyrnumála hjá Roma í sumar.

Totti gaf út yfirlýsingu á fimmtudaginn síðastliðinn þar sem hann sagði að leikurinn gegn Genoa í dag yrði sá síðasti sem hann myndi spila í treyju Roma. Á mánudaginn myndi hann svo taka glaður á móti nýrri áskorun, en hann gaf ekkert út um hver nýja áskorunin yrði. 

Roma er fyrir leikinn í öðru sæti deildarinnar með 84 stig og þarf á sigri að halda til þess að tryggja sér öruggt sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu á næstu leiktíð.

Francesco Totti er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Roma.
Francesco Totti er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Roma. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert