Oscar í átta leikja bann – myndskeið

Allt ætlaði um koll að keyra í leiknum.
Allt ætlaði um koll að keyra í leiknum. AFP

Brasilíumaðurinn Oscar, fyrrum leikmaður Chelsea, hefur verið dæmdur í átta leikja bann af kínverska knattspyrnusambandinu fyrir að stofna til slagsmála í leik með liði sínu Shanghai SIPG í deildarleik gegn Guangzhou á dögunum.

Oscar hafði þá lagt upp mark sem leikmenn Guangzhou voru ósáttir með og töldu að um rangstöðu væri að ræða. Oscar þrumaði boltanum viljandi í kjölfarið í tvo andstæðinga og þá sauð allt upp úr.

Oscar slapp sjálfur við refsingu í leiknum, en tveir leikmenn andstæðinganna voru reknir af velli. Hann var kallaður á fund knattspyrnusambandsins þar sem refsingin var ákveðin, en hann mætti ekki á staðinn. Hann þarf einnig að greiða 5 þúsund dollara í sekt, sem nemur um 500 þúsund íslenskum krónum.

Oscar mun ekki geta spilað með liði sínu aftur fyrr en um miðjan ágúst, en hann hefur skorað fjögur mörk og lagt upp önnur tíu í 20 leikjum með liði Shanghai það sem af er.

Myndskeið af uppþotunum má sjá hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert