Íslendingar á skotskónum – Morten Gamst lagði upp fyrir Aron

Aron Sigurðarson.
Aron Sigurðarson. AFP

Knattspyrnumennirnir Aron Sigurðarson og Matthías Vilhjálmsson voru á skotskónum í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag þar sem margir Íslendingar komu við sögu.

Aron skoraði eina mark Tromsø sem gerði 1:1 jafntefli við Ingvar Jónsson og félaga í Sandefjord. Aron jafnaði metin á 32. mínútu eftir stoðsendingu frá engum öðrum en Morten Gamst Pedersen sem gerði garðinn frægan með Blackburn á Englandi. Ingvar átti einnig fínan leik fyrir Sandefjord og varði oft vel.

Tromsø hefur 14 stig í fallsæti, er tveimur stigum frá Kristansund sem er í öruggu sæti en hefur jafnmörg og Strømgodset sem er í umspilssæti. Sandefjord hefur 18 stig í 9. sæti.

Aron Elís Þrándarson og Daníel Leó Grétarsson léku með liði Ålesund sem vann Odd 5:1. Aron fór af velli á 71. mínútu en Daníel Leó lék allan tímann á miðjunni. Adam Örn Arnarsson var ekki í hóp. Ålesund hefur 22 stig í 4. sæti.

Matthías Vilhjálmsson skoraði fyrsta mark Rosenborg sem vann Sogndal 3:0 og lék auk þess allan leikinn. Mark Matthíasar kom á 60. mínútu. Kristinn Jónsson vermdi varamannabekk Sogndal. Rosenborg hefur 28 stig í toppsætinu en Sogndal 16 stig í 12. sæti.

Bakvörðurinn Viðar Ari Jónsson var allan tímann á varamannabekk Brann sem gerði 1:1 jafntefli við Sarpsborg á útivelli í baráttu þessara liða í 2. og 3. sæti. Brann hefur 26 stig í 2. sæti en Sarpsborg stigi minna í 3. sæti.

14. umferðinni af 30 lýkur svo í dag með leik Viking og Haugesund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert