Sýnir hversu gott Ísland er í dag

Lars Lagerbäck kampakátur á Arnarhóli eftir að íslenska landsliðið sneri …
Lars Lagerbäck kampakátur á Arnarhóli eftir að íslenska landsliðið sneri heim frá EM. mbl.is/Eggert

Lars Lagerbäck rifjaði upp lykilatriðin að sigri Íslands á Englandi í 16-liða úrslitum Evrópumóts karla í knattspyrnu í tilefni af því að í dag er eitt ár liðið frá sigrinum sögulega, sem vakti athygli um allan heim.

Wayne Rooney kom Englandi yfir úr vítaspyrnu strax á 4. mínútu leiksins en Ragnar Sigurðsson jafnaði metin tveimur mínútum síðar. Kolbeinn Sigþórsson kom Íslandi í 2:1 á 18. mínútu og fleiri mörk voru ekki skoruð.

„Maður getur ekki haft svo mikil áhrif á leik sem er í gangi sem þjálfari, en í hálfleik sagði ég að við yrðum að spila áfram okkar leik. Ég hafði reynslu af því með íslenska liðið, sérstaklega í seinni leiknum gegn Króatíu í umspilinu fyrir HM 2014, að við urðum of varfærnir og gerðum mistök. Við urðum að spila áfram með sama hætti í seinni hálfleik gegn Englandi,“ sagði Lagerbäck í viðtali við The Set Pieces.

„Þetta snerist ekki um einn ákveðinn leikmann Englands, fótbolti er jú liðsíþrótt. Okkar styrkleiki fólst í því hvað við vorum vel skipulagðir. Við lékum sem lið. Eftir því sem leið á leikinn, og Ísland var yfir, urðu Englendingar svolítið pirraðir og örvæntingarfullir. Þeir sköpuðu sér einhver færi en við stýrðum leiknum í seinni hálfleiknum,“ sagði Lagerbäck.

„England er stundum svolítið of hátt skrifað af stuðningsmönnum og fjölmiðlum. Það er auðvelt fyrir mig að segja það, því ég hef aldrei tapað fyrir Englandi. Þetta er ekki auðvelt fyrir England,“ sagði Lagerbäck.

Lagerbäck fylgist áfram vel með íslenska liðinu og sá Ísland vinna Króatíu 1:0 í undankeppni HM fyrr í þessum mánuði:

„Þetta var framúrskarandi liðsframmistaða. Þeir stýrðu leiknum. Króatía fékk fá færi, og það sýnir bara hversu gott íslenska liðið er í augnablikinu. Þeir eiga svo sannarlega möguleika á að komast á HM,“ sagði Lagerbäck.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert