Vitum að Stjarnan er með hættulegt lið

Stephen Bradley.
Stephen Bradley. AFP

„Flugvélinni seinkaði á leið til flugvallarins í Dublin og því seinkaði okkur aðeins. Þetta hefur ekki mikil áhrif á okkur, við seinkuðum æfingunni í dag um klukkutíma og okkur líður vel,“ sagði Stephen Bradley, þjálfari írska knattspyrnufélagsins Shamrock Rovers, er hann var nýlentur hér á landi. Shamrock mætir Stjörnunni í forkeppni Evrópudeildarinnar í Garðabænum á morgun. 

Hann segir Samsung-völlinn vera svipaðan þeim sem Shamrock æfir á. 

„Þetta er mjög svipað þeim velli sem við æfum á. Þetta er stór völlur með gervigras og við erum vanir því, við hlökkum til að spila á honum.“

Hvað veit Bradley um Stjörnuna? 

„Við kíktum á þá um helgina og við vitum að þetta er hættulegt lið í sókninni. Þetta verður erfiður leikur, en við höfum trú á að við getum valdið þeim vandræðum. Þetta eru tvö jöfn lið og þetta ætti að vera góður leikur. Bæði lið eru góð og þá sérstaklega í sóknarleiknum.“

Um 100 stuðningsmenn félagsins fylgja Shamrock til Íslands. 

„Það var mikið af stuðningsmönnum sem komu með sömu flugvél. Þeir fylgja okkur alltaf þegar við spilum í Evrópu, sama hvar við spilum. Þetta er stærsta félagið á Írlandi og við eigum bestu stuðningsmennina. Þeir verða mjög háværir á morgun, enda tilbúnir í leikinn."

Hann segir það ekki skipta neinu máli að Stjörnunni hafi gengið illa í deildinni að undanförnu. 

„Þetta er öðruvísi leikur, við vitum að þeir töpuðu nokkrum leikjum í röð og gerðu svo jafntefli um helgina. Þetta verður að sama skapi öðruvísi leikur fyrir okkur. Við getum ekki skoðað undanfarna leiki hjá þeim og búist við einhverju öðru en að þetta verði mjög erfiður leikur,“ sagði hann að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert