Varð fyrir árás eigin stuðningsmanna

Stuðningsmenn FK Vojvodina eru blóðheitir.
Stuðningsmenn FK Vojvodina eru blóðheitir.

Það er ekki ávallt tekið út með sældinni að vera knattspyrnumaður og því fékk serbneski miðjumaðurinn Nikola Trujic sem leikur með serbneska liðinu FK Vojvodina svo sannarlega að kynnast í upphafi þessa mánaðar.

Trujic heldur því fram að stuðningsmenn FK Vojvodina hafi ráðist á sig í búningsklefa liðsins í kjölfar þess að liðið var slegið út af slóvakíska liðinu Ruzomberok  í Slóvakíu í byrjun júlímánaðar.

„Stuðningsmenn okkar komust inn búningsklefa liðsins, þar tóku þeir mig hálstaki og ég fékk högg í höfuðið. Þetta voru þó nokkuð margir stuðningsmenn sem voru saman komnir í búningsklefanum,“ sagði Trujic í samtali við serbneska fjölmiðla um atvikið. 

Alþjóðaleikmennasamtökin, Fifpro, hafa óskað eftir því að evrópska knattspyrnusambaldið, UEFA, hefji rannsókn á málinu og kanni málið bæði hjá Vojvodina og Ruzomberok. Hvorki UEFA né forráðamenn félaganna hafa tjáð sig um atburðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert