Björn Bergmann á leið til Rússlands?

Björn Bergmann Sigurðarson gæti verið á leið til Rússlands.
Björn Bergmann Sigurðarson gæti verið á leið til Rússlands. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Landsliðsmaðurinn í knattspyrnu og leikmaður Molde í Noregi, Björn Bergmann Sigurðarson, er eftirsóttur í Rússlandi. Samkvæmt Vísi hefur rússneska úrvalsdeidarfélagið Rostov gert tilboð í Björn, en Molde hafnað tilboðinu. Viðræður milli félaganna standi enn og gæti náðst niðurstaða fljótlega.

Molde er í fjórða sæti deildarinnar með 31 stig að loknum 20 umferðum, en Björn Bergmann er næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar með ellefu mörk. Björn Bergmann á að baki sjö landsleiki, en í þeim hefur hann skorað eitt mark.

Sverrir Ingi Ingason leikur með Rostov, en hann gekk til liðs við félagið frá Granada á Spáni fyrr á tímabilinu. Liðið er í þriðja sæti deildarinnar og hefur aðeins tapað einum leik það sem af er tímabilinu. Því gæti farið svo að Sverrir Ingi fengi nýjan liðsfélaga áður en langt um líður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert