Sölvi á heimleið – Stefnir í harða baráttu

Sölvi Geir Ottesen.
Sölvi Geir Ottesen. Ljósmynd/gzrffc.com.cn

Sölvi Geir Ottesen stefnir á að spila í Pepsi-deild karla í knattspyrnu á næstu leiktíð en hann mun yfirgefa kínverska liðið Guangzhou R&F þegar samningur hans við liðið rennur út um áramótin.

Sölvi staðfesti í samtali við mbl.is í morgun að hann hafi í hyggju á að spila á Íslandi á næsta tímabili en hann gekk í raðir Guangzhou R&F í júlí eftir að hafa spilað með Buriram United í Taílandi fyrri hluta ársins.

Sölvi hefur komið við sögu í fjórum leikjum Guangzhou R&F og skorað í þeim eitt mark en keppnistímbilinu í kínversku úrvalsdeildinni lýkur í byrjun nóvember. Sölvi og félagar hans eru í 6. sæti deildarinnar af 16 liðum.

Áður en Sölvi gerði samning við Guangzhou R&F í júlí eftir að hafa gert starfslokasamning við Buriram United íhugaði hann að spila hér á landi síðari hluta tímabilsins og æfði hann um tíma með FH-ingum og sagði þá í viðtali við Morgunblaðið að FH væri spennandi kostur.

Fari svo að Sölvi ákveði að koma heim, eins og líklegt er í dag, má reikna með því að mörg lið úr Pepsi-deildinni muni reyna að fá miðvörðinn sterka til liðs við sig en Sölvi er 33 ára gamall og hefur verið í atvinnumennsku frá því hann yfirgaf Víking Reykjavík árið 2004.

Frá þeim tíma hefur hann spilað með sænska liðinu Djurgården, dönsku liðunum SønderjyskE og FC København, Ural í Rússlandi, kínversku liðunum Jiangsu Sainty, Wuhan Zall og Guangzhou R&F og með liði Buriram United í Taílandi.

Sölvi hefur spilað 28 leiki með íslenska A-landsliðinu og lék síðast með því gegn Finnum í byrjun árs 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert