Skammtíma samningur í höfn

Pernille Harder fagnar marki fyrir danska landsliðið.
Pernille Harder fagnar marki fyrir danska landsliðið. Ljósmynd/vfl-wolfsburg.de

Danska knattspyrnusambandið tilkynnti í dag að samningar hefðu náðst milli sambandsins og leikmanna danska kvennalandsliðsins í knattspyrnu þess efnis að leikmenn liðsins mæti til æfinga á nýjan leik. Þá mun leikur Danmerkur og Króatíu í annarri umferð í undankeppni HM 2019 fara fram á tilsettum tíma á fimmtudaginn kemur.

„Síðustu dagar hafa einkennst af deilum milli leikmanna og sambandsins. Það hefur skaðað danska kvennaknattspyrnu og danskan fótbolta í heild sinni. Nú einbeitum við okkur að því sem skiptir máli, það er fótboltinn sjálfur. Það er mikilvægur leikur gegn Króatíu fyrir höndum og við verðum að beina sjónum okkar að honum núna,“ sagði Kim Hallberg, íþróttastjóri danska knattspyrnusambandsins á dbu.dk.

„Það er mikilvægt að við höfum náð að gera samning sem gerir okkur kleift að spila í undankeppni HM. Við munum svo ræða málin áfram eftir leikinn gegn Króatíu og freista þess að gera samkomulag sem allra fyrst sem leysir málið til frambúðar,“ sagði Pernille Harder, fyrirliði danska kvennalandsliðsins í knattspyrnu um samkomulagið á dbu.dk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert