Elísabet valin þjálfari ársins

Elísabet með verðlaunagripinn sem hún fékk í kvöld.
Elísabet með verðlaunagripinn sem hún fékk í kvöld. Ljósmynd/fotbollsgalan

Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari sænska kvennaliðsins Kristianstad, var í kvöld útnefnd þjálfari ársins í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á verðlaunahátíð sænska knattspyrnusambandsins.

Undir hennar stjórn varð Kristianstad í fimmta sæti í sænsku úrvalsdeildinni á nýafstaðinni leiktíð. Hún hafði betur í baráttunni við Kim Björkegren, þjálfara meistaraliðs Linköping, og Joel Riddez, þjálfara Djurgården.

Þetta var níunda tímabil Elísabetar með Kristianstad og hefur hún samið um að þjálfa liðið áfram. Einn leikmanna liðsins er landsliðskonan Sif Atladóttir.

Landsliðsmarkvörðurinn Guðbjörg Gunnarsdóttir úr Djurgården var tilnefnd sem einn af þremur bestu markvörðunum en Hedvig Lindahl markvörður sænska landsliðsins og enska liðsins Chelsea varð fyrir valinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert