Fyrrum leikmaður Þórs/KA lék Færeyjar grátt

Mateja Zver í baráttu í leik með Þór/KA.
Mateja Zver í baráttu í leik með Þór/KA. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slóvenía nældi í sín fyrstu stig í riðli Íslands í undankeppni heimsmeistaramóts kvenna í knattspyrnu 2019 þegar liðið fékk Færeyjar í heimsókn í dag. Lokatölur urðu 5:0 fyrir Slóveníu.

Staðan í hálfleik var 4:0, en landsliðsfyrirliðinn Mateja Zver lagði upp fyrstu tvö mörk Slóvena. Hún er fyrrum leikmaður Þórs/KA og skoraði 62 mörk í 89 leikjum með norðanliðinu á árunum 2008 til 2013.

Slóvenía hefur þrjú stig í riðlinum eftir þrjá leiki, en Færeyjar eru án stiga. Ísland og Tékkland hafa sjö stig og Þýskaland er með níu stig á toppnum. Næstu leikir í riðlinum fara fram í apríl, en þá heimsækir Ísland lið Slóveníu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert