Lars Lagerbäck farinn að efast hjá Noregi

Lars Lagerbäck náði frábærum árangri sem landsliðsþjálfari Íslands.
Lars Lagerbäck náði frábærum árangri sem landsliðsþjálfari Íslands. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Lars Lagerbäck, fyrrverandi landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu og núverandi landsliðsþjálfari Noregs, segist þurfa að íhuga framtíð sína hjá norska knattspyrnusambandinu.

Lars tók við norska karlalandsliðinu í febrúar síðastliðnum þegar liðið var í 84. sæti á heimslista FIFA. Markmiðið var að rjúka upp listann, eins og Lars afrekaði með Ísland, en Noregur hefur nú komist upp í 58. sæti og getur ekki farið hærra á árinu.

„Við erum þar sem við eigum skilið að vera [á heimslistanum], en það er ekki það sem ég hafði vonast eftir. Markmiðið var að komast á meðal efstu 50 þjóða strax á fyrsta árinu, en það hefur ekki gengið eftir,“ sagði Lars, sem nú íhugar framtíð sína.

„Ég verð að horfast í augu við sjálfan mig í spegli og skoða það hvort ég sé rétti maðurinn í þetta starf. Ég hef reynt að prófa mismunandi leikmenn og síðustu tveir leikir voru góðir þar sem ég fékk þau svör sem ég leitaði að,“ sagði hinn 69 ára gamli Lars Lagerbäck við NRK.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert