Ævintýri skíðabæjarins heldur áfram gegn Arsenal

Mikil stemning er á heimaleikjum Östersund sem hefur skákað stórum …
Mikil stemning er á heimaleikjum Östersund sem hefur skákað stórum liðum í Evrópudeildinni í haust og vetur. AFP

Östersund, 50 þúsund manna borg í Norður-Svíþjóð, hefur lengst af verið þekktust fyrir skíðasvæði sín og stórmót í þeirri íþrótt. Borgin hefur m.a. nokkrum sinnum sótt um að fá að halda Vetrarólympíuleikana en ekki tekist enn sem komið er.

Knattspyrnulið bæjarins hefur hinsvegar slegið í gegn á síðustu árum og komið gríðarlega á óvart í Evrópudeild UEFA í vetur. Þar er Östersund komið í 32 liða úrslit og dróst í gær gegn enska stórliðinu Arsenal.

Fyrir sex árum tók Graham Potter, 36 ára gamall Englendingur sem lék m.a. með Stoke, Southampton og WBA á árum áður, við þjálfun Östersund sem þá var í fjórðu efstu deild Svíþjóðar. Félagið hafði aldrei verið ofar en í þriðju deild og fékk um 700 til 800 manns á heimaleikina.

Með Harald í markinu

Potter fór með Östersund upp um tvær deildir á tveimur árum og liðið var komið í B-deildina 2013. Þar var það í þrjú ár og komst í fyrsta sinn upp í úrvalsdeild haustið 2015, þá með Harald Björnsson, núverandi markvörð Stjörnunnar, á milli stanganna. Hann var varamarkvörður liðsins í hálft annað ár en spilaði svo sjö af síðustu átta leikjum liðsins haustið 2015 þegar liðið fór upp.

Byrjunarlið Östersund sem gerði jafntefli við Herthu í Berlín, 1:1, …
Byrjunarlið Östersund sem gerði jafntefli við Herthu í Berlín, 1:1, í síðustu viku. AFP

Haraldur fór í Garðabæinn en Östersund í úrvalsdeildina. Þar náði liðið 8. sæti í fyrstu tilraun og varð síðan bikarmeistari síðasta vor með því að sigra Íslendingaliðið Norrköping 4:1 í úrslitaleik. Þar með var Östersund komið með keppnisrétt í forkeppni Evrópudeildarinnar 2017-18.

Þátttaka Östersund í Evrópudeildinni hefur verið eitt stórt ævintýri. Liðið skellti tyrkneska stórveldinu Galatasaray í 2. umferð í sumar, 3:1 samanlagt, vann Fola Esch frá Lúxemborg í 3. umferð og í umspili um sæti í riðlakeppninni báru Svíarnir sigurorð af PAOK Saloniki frá Grikklandi á marki á útivelli eftir að liðin voru jöfn, 3:3, samanlagt.

Östersund lenti í riðli með Herthu Berlín, Athletic Bilbao og úkraínska liðinu Zorya Luhansk. Flestir reiknuðu með því að liðið frá skíðabænum yrði neðst en það fór á annan veg. Östersund vann Zorya tvívegis, vann Herthu heima og gerði jafntefli í Berlín og gerði 2:2-jafntefli heima gegn Athletic Bilbao. Eina tapið var í útileiknum á Spáni og Östersund og Bilbao sigldu af miklu öryggi í 32 liða úrslitin.

Brwa Nouri fyrirliði Östersund og landsliðsmaður Írak og þjálfarinn enski …
Brwa Nouri fyrirliði Östersund og landsliðsmaður Írak og þjálfarinn enski Graham Potter á fréttamannafundi. AFP

Arsenal á gervigrasið

Þar verður Arsenal andstæðingurinn og kemur í febrúar í heimsókn á Jämtkraft-leikvanginn, þar sem um 8.500 manns komast fyrir og leikið er á gervigrasi. Enda væri vart möguleiki á öðru á þessum árstíma í Östersund þar sem yfirleitt er 2-5 stiga frost en bærinn er á sömu breiddargráðu og Vestmannaeyjar og langt inni í landi.

Á sama tíma hefur Östersund styrkt stöðu sína heima fyrir og endaði í fimmta sæti úrvalsdeildarinnar á nýloknu tímabili, á eftir Malmö, AIK, Djurgården og Häcken. Og Potter er enn við stjórnvölinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert