Alfreð allt í öllu í dramatísku jafntefli

Alfreð Finnbogason í baráttu við Javi Martinez, leikmann Bayern München, …
Alfreð Finnbogason í baráttu við Javi Martinez, leikmann Bayern München, fyrr á leiktíðinni. AFP

Alfreð Finnbogason gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu þegar lið hans, Augsburg, gerði 3:3-jafntefli gegn Freiburg í 17. umferð þýsku efstu deildarinnar í knattspyrnu karla í dag.

Alfreð skoraði tvö marka sinna með góðum sköllum í uppbótartíma leiksins og tryggði Augsburg þar af leiðandi stig í síðasta leik liðsins fyrir jólafrí.

Alfreð kom Augsburg yfir með marki sínu strax á fyrstu mínútu í leiksins, en Freiburg svaraði með þremur mörkum áður en kom að þætti Alfreð á nýjan leik. 

Sjónvarpsdómgæsla sem notast er við í þýsku deildinni varð til þess að Augsburg fékk ekki að taka vítaspyrnu sem dómari leiksins hafði þó dæmt.

Þegar dómari leiksins skoðaði aðdragandann að vítaspyrnudómnum tók hann eftir því að Alfreð hafði handleikið boltann á miðjum vellinum áður en boltinn barst inn í vítateig Freiburg og leikmaður Augsburg var felldur. 

Í stað þess að Augsburg fengi vítapsyrnu og gæti jafnað metin í 2:2 fékk Freiburg aukaspyrnu á miðjum vellinum. Atvikið var nokkuð skringilegt og voru Augsburg-menn allt annað en sáttir við þessa niðurstöðu. 

Alfreð hefur nú skorað ellefu mörk í deildinni á yfirstandandi leiktíð, en hann komst þar af leiðandi upp fyrir þýska landsliðsframherjann Kevin Volland, leikmann Bayer Leverkusen, á listanum yfir markahæstu leikmen deildarinnar. 

Alfreð er í þriðja sæti á téðum lista, en það eru einungis Robert Lewandowski, sóknarmaður Bayern München, og Pierre Emerick-Aubameyang, sem leiðir framlínu Borussia Dortmund sem hafa skorað meira en Alfreð.

Aubameyang hefur skorað einu marki meira en Alfreð og Lewandowski hefur skorað fjórum mörkum meira en íslenski landsliðsframherjinn. 

Augsburg verður í níunda sæti deildarinnar með 24 stig á meðan jólafríið í þýsku deildinni stendur yfir, en liðið er tveimur stigum frá Evrópusæti eins og sakir standa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert