Hafa áhuga á að selja Elías Má

Elías Már Ómarsson.
Elías Már Ómarsson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Sænska úrvalsdeildarliðið IFK Gautaborg hefur áhuga á að selja sóknarmanninn Elías Már Ómarsson að því er fram kemur í sænska blaðinu Göteborg Posten í dag.

Það gekk vel hjá Elíasi Má hjá Gautarborgarliðinu þegar það fékk hann að láni frá norska úrvalsdeildarlinu Vålerenga og skoraði hann sex mörk í 13 leikjum í deildinni. Í framhaldi gekk Gautaborg frá kaupum á Keflvíkingnum.

Elías náði sér ekki á strik á síðustu leiktíð. Hann kom við sögu í 25 leikjum en var aðeins fjórum sinnum í byrjunarliðinu og tókst ekki að skora í deildinni.

Elías er samningsbundinn Gautaborg til ársins 2020 en að því er fram kemur í Göteborg Posten hafa félög í Svíþjóð, Noregi og Sviss áhuga á að fá hann til liðs við sig.

„Ég vona að ég nái að vinna mér sæti í byrjunarliðinu og vera hér áfram. Ég vil vera í liði þar sem ég fæ að spila og ég trúi því að ég fái það hér. En það er janúar og þú veist aldrei hvað gerist. Dyrnar eru jú opnar hvort sem leikmenn eru að koma eða fara,“ segir Elías Már í viðtali við sænska blaðið.

Elías Már er 22 ára gamall og lék með Keflavík áður en hann gekk til liðs við Vålerenga árið 2015. Hann hefur spilað 9 A-landsleiki en hefur ekki skorað í þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert