Stórsigur hjá Sigurði

Sigurður Ragnar Eyjólfsson segir kínverskri landsliðskonu til á æfingu liðsins …
Sigurður Ragnar Eyjólfsson segir kínverskri landsliðskonu til á æfingu liðsins fyrir leikinn í Foshan. Ljósmynd/@ChinaWFT

Kínverska kvennalandsliðið í knattspyrnu, undir stjórn Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar, vann stórsigur á Víetnam, 4:0, í fyrsta leik sínum á alþjóðlegu móti sem hófst í Foshan í suðausturhluta Kína í dag.

Jin Kun, Wang Shanshan, Wang Shuang og Song Duan skoruðu mörk kínverska liðsins sem gæti mætt því íslenska í Algarve-bikarnum í byrjun mars. Auk Sigurðar Ragnars, sem tók við liðinu skömmu fyrir jól, eru Halldór Björnsson og Dean Martin í þjálfarateymi liðsins.

Kólumbía og Taíland gerðu jafntefli, 1:1, í hinum leik dagsins á mótinu. Kína mætir Taílandi á sunnudaginn og Kólumbíu í lokaumferðinni á þriðjudaginn.

Kína er í 14. sæti á heimslista FIFA, Kólumbía í 22. sæti, Taíland í 29. sæti og Víetnam í 33. sæti þannig að mótið er nokkuð sterkt á heimsmælikvarða. Til samanburðar er íslenska landsliðið í 18. sæti heimslistans.

Hér fyrir neðan má sjá auglýsingu sem kínverska knattspyrnusambandið gerði fyrir mótið í Foshan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert