Leiður er hann yfirgaf Chelsea

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Eiður Smári Guðjohnsen, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður Barcelona og Chelsea, er í áhugaverðu viðtali við Sport360 þar sem hann ræðir um mögulega brottför Belgans Eden Hazard frá Chelsea til Real Madrid og viðureign liðsins gegn Barcelona í Meistaradeild Evrópu í næstu viku.

Eiður Smári var í um margt svipaðri stöðu og Hazard á sínum tíma er hann fór frá Chelsea til Barcelona árið 2006. Spurður álits um það hvort Hazard eigi að yfirgefa Chelsea fyrir Real Madrid segir Eiður um vandasamt mál að ræða en vonar þó að Hazard verði áfram í Lundúnum.

Barcelona-liðið í dag ekki það besta

„Ég held að Hazard sé besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar. Þetta er erfitt val vegna þess að við erum öll mismunandi með mismunandi markmið. Ég þekki hann ekki mjög vel. Hann þarf bara að vera ánægður. Þegar ég fór frá Chelsea þá vildi ég í rauninni ekki fara,“ sagði Eiður.

Eiður á góðar minningar frá tíma sínum með Chelsea.
Eiður á góðar minningar frá tíma sínum með Chelsea. EDDIE KEOGH

„Staðan sem ég var í var bara þannig. En við erum augljóslega að tala um Barcelona og það var nánast ómögulegt að hafna því tækifæri. Chelsea er frábært félag. Ég elska þetta félag og var ánægður með tíma minn þar. Ég var leiður þegar ég fór og á þaðan góðan minningar,“ sagði Eiður.

„En ég vona að hann búi til einhverjar fleiri minningar ef hann fer á endanum. Ég vona að hann verði lengur hjá Chelsea,“ sagði Eiður Smári.

Líkt og fyrr segir mætast Chelsea og Barcelona í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á þriðjudag á Stamford Bridge. Eiður lék auðvitað með báðum liðum.

Eiður Smári Guðjohnsen vann meðal annars Meistaradeildina með Barcelona.
Eiður Smári Guðjohnsen vann meðal annars Meistaradeildina með Barcelona. AFP

„Ég var nógu heppinn til þess að skora fyrir Chelsea gegn Barcelona og svo fyrir Barcelona gegn Chelsea. Ég hef því svolítið blendnar tilfinningar gagnvart þessu,“ sagði Eiður sem sagðist vera á báðum áttum er hann var beðinn um að spá fyrir um leikslok.

„Chelsea hefur vantað stöðugleika síðustu vikurnar. En jafnvel þó að Barcelona sé á toppnum í La Liga þá er þetta ekki besta Barcelona-lið sögunnar,“ sagði Eiður að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert