Kolbeinn kýs gras og sagði nei

Kolbeinn Sigþórsson skælbrosandi í treyju Nantes.
Kolbeinn Sigþórsson skælbrosandi í treyju Nantes. Ljósmynd/Nantes

Sænska knattspyrnufélagið IFK Gautaborg freistaði þess að fá Kolbein Sigþórsson í sínar raðir frá Nantes.

Ekkert varð af sölunni þar sem Kolbeinn hefur glímt lengi við erfið hnémeiðsli og vildi því ekki taka þá áhættu að spila fjölda leikja á gervigrasi, eins og algengt er í Svíþjóð.

Þetta fullyrti Mats Gren, íþróttastjóri IFK Gautaborgar, við Aftonbladet í Svíþjóð í fyrrakvöld. Franski miðillinn 20 Minutes segist hafa fengið þessar upplýsingar staðfestar úr herbúðum Nantes.

Í frétt Aftonbladet segir að forráðamenn Nantes séu reiðubúnir að láta Kolbein fara ódýrt í ljósi langvinnra meiðsla hans og vegna hás launakostnaðar. Kolbeinn hefur ekki spilað leik fyrir liðið síðan í ágúst 2016, en hann var um það leyti lánaður í hálft ár til Galatasaray í Tyrklandi þar sem hann gat ekkert spilað vegna meiðslanna.

Kolbeinn mun þó vera á góðum batavegi núna og gerir sér vonir um að geta komist á HM í Rússlandi með íslenska landsliðinu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert