Coutinho kominn á blað hjá Barcelona

Lionel Messi fagnar hér öðru marki sinna fyrir Barcelona gegn …
Lionel Messi fagnar hér öðru marki sinna fyrir Barcelona gegn Girona í kvöld. AFP

Luis Suárez skoraði þrennu fyrir Barcelona þegar liðið gjörsigraði Girona, 6:1, í 25. umferð spænsku efstu deildarinnar í knattspyrnu karla á Nou Camp í kvöld.

Barcelona bauð til  markaveislu á heimavelli sí­num eftir að Cristian Portu hafði komið Girona yfir í­ upphafi leiksins. Barcelona sló félagsmet með sigrinum í kvöld, en liðið hefur nú leikið 33 leiki í i röð án þess að bíða lægri hlut. 

Philippe Coutinho opnaði markareikning sinn fyrir Barcelona með einkar laglegu marki, en þetta var fimmti deildarleikur brasilíska sóknartengiliðsins síðan hann gekk til liðs við félagið frá Liverpool í janúar á þessu ári.

Coutinho skoraði fimmta mark Barcelona í leiknum með hnitmiðuðu skoti frá vítateigshorninu, en skotið fór í fallegum sveig framhjá YassineBounou, markverði Girona, áður en boltinn fór í stöngina og inn.

Lionel Messi skoraði tvö marka Barcelona í leiknum, en hann er markahæsti leikmaður deildarinnar á yfirstandandi leiktið með 22 mörk. Suárez sem er næstur á þeim lista nálgaðist Messi með mörkunum þremur, en hann hefur nú skorað 20 mörk í deildinni á þessari leiktíð.

Barcelona trónir á toppi deildarinnar með 65 stig, en liðið hefur 10 stiga forystu á Atlético Madrid sem á þó leik til góða á toppliðið. Atlético Madrid getur minnkað forskot Barcelona með hagstæðum úrslitum þegar liðið mætir Sevilla annað kvöld.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert