Jón Daði kom Reading til bjargar

Jón Daði Böðvarsson í leik með íslenska karlalandsliðinu í knattpsyrnu …
Jón Daði Böðvarsson í leik með íslenska karlalandsliðinu í knattpsyrnu gegn Kósóvó í undankeppni HM 2018. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Daði Böðvarsson tryggði Reading stig með því að skora jöfnunarmarkið í 3:3-jafntefli liðsins gegn Derby County í 34. umferð ensku B-deildarinnar í knattspyrnu karla í dag. Jón Daði jafnaði metin fyrir Reading þegar um það bil tíu mínútur voru eftir af leiknum. Axel Óskar Andrésson var ekki í leikmannahópi Reading vegna meiðsla. 

Jón Daði gerði Birki Bjarnasyni, samherja sínum hjá íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu, greiða með marki sínu í dag. Birkir sat allan tímann á bekknum hjá Aston Villa sem vann Sheffield Wednesday, 4:2, í leik liðanna í dag. 

Aston Villa er í þriðja sæti deildarinnar með 63 stig eftir þennan sigur, en liðið er nú þremur stigum á undan Derby County sem er sæti neðar. Þá er Aston Villa einu stigi á eftir Aroni Einari Gunnarssyni og liðsfélögum hans hjá Cardiff City sem sitja í öðru sæti deildarinnar eins og sakir standa. 

Efstu tvö lið deildarinnar fara beint upp í efstu deild á næstu leiktíð, en liðin sem hafna í þriðja til sjötta sæti deildarinnar fara í umspil um eitt laust sæti í efstu deild á næsta keppnistímabili. Reading er hins vegar fjórum stigum frá fallsvæði deildarinnar eftir jafnteflið í dag.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert