Barcelona aftur með fótboltaskóla á Íslandi

Frá fótboltaskóla Barcelona í fyrra.
Frá fótboltaskóla Barcelona í fyrra. Ljósmynd/Knattspyrnuakademía Íslands

Í þriðja sinn býður spænska knattspyrnuliðið Barcelona í samvinnu við Knattspyrnuakademíu Íslands upp á fótboltaskóla hér á Íslandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Knattspyrnuakademíu Íslands.

Fótboltaskólinn verður á æfingasvæðinu við Kópavogsvöll 8.-12. júní, bæði fyrir pilta og stúlkur, sem þó munu æfa í sitt hvoru lagi. Honum lýkur með hófi þar sem góðir gestir frá Barcelona mæta.

Skráning í fótboltaskólann, sem ætlaður er börnum á aldrinum 10-16 ára, er nú þegar hafin á skráningarsíðu Knattspyrnuakademíu Íslands: http://www.knattspyrnuakademian.is

Reiknað er með að færri komist að en vilja og þess vegna eru forráðamenn hvattir til að skrá börnin sín sem fyrst.

Árið 2016 valdi Barcelona, sem er eitt öflugasta íþróttafélag heims, Ísland til að bjóða eingöngu stúlkum, í fyrsta sinn, upp á æfingabúðir þar sem reyndir þjálfarar félagsins þjálfuðu þátttakendur eftir hinu fræga æfingakerfi Barcelona og miðluðu um leið þekkingu sinni til íslenskra þjálfara.

Í fyrra ákvað Barcelona, í samvinnu við Knattspyrnuakademíu Íslands, að bjóða einnig upp á æfingar fyrir íslenska pilta á aldrinum 10-16 ára. Gerður var góður rómur að fótboltaskólanum og bæði þátttakendur og foreldrar þeirra lýstu yfir mikilli ánægju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert