Viðar ætlar að berjast fyrir stöðunni

Viðar Ari Jónsson, til hægri, í landsleik gegn Mexíkó snemma …
Viðar Ari Jónsson, til hægri, í landsleik gegn Mexíkó snemma árs 2017. AFP

Viðar Ari Jónsson, knattspyrnumaður hjá Brann í Noregi, kveðst ákveðinn í að berjast fyrir stöðu sinni hjá félaginu en hann var ekki í byrjunarliði félagsins í fyrsta leik þess í norsku úrvalsdeildinni á dögunum.

Bergensavisen fjallar um stöðu mála hjá Viðari og möguleika hans á að komast í íslenska landsliðið. Þar kemur fram að eistneski landsliðsbakvörðurinn Taijo Teniste hafi verið gríðarlega stöðugur í stöðu hægri bakvarðar en í þeirri stöðu hafi margir séð Viðar sem arftaka Birkis Más Sævarssonar, fyrrverandi leikmanns Brann í landsliði Íslands. Viðar sat á bekknum í fyrsta leiknum um síðustu helgi en Brann vann þá Bodø/Glimt, 2:0. Útileik í fyrstu umferð gegn Ranheim var frestað vegna vallarskilyrða.

„Það er að sjálfsögðu svekkjandi að vera ekki í liðinu, en það er enginn ánægður þegar hann spilar ekki. Það er mjög hörð barátta um stöður í liðinu, og fyrir mig er afar mikilvægur tími fram undan í vor og sumar. Ég þarf að halda áfram að leggja hart að mér á hverjum degi. Ég tel mig nógu góðan til að vera í liðinu,“ segir Viðar við Bergensavisen.

Spurður hvort komið hafi til umræðu að hann yrði lánaður frá félaginu segir Viðar að hann hafi ekki heyrt neitt um slíkt og hann hafi ekki rætt það við sinn umboðsmann. „En ef það kæmi upp eitthvað áhugavert gæti það verið gott fyrir báða aðila,“ segir Viðar sem lék sem vinstri bakvörður í síðustu leikjum á undirbúningstímabilinu. Þá stöðu spilar núna Ruben Kristiansen en hann hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning við Brann í vetur.

Viðar lék sitt fyrsta tímabil með Brann í fyrra eftir að félagið keypti hann af Fjölni og kom við sögu í ellefu af þrjátíu leikjum liðsins í úrvalsdeildinni, átta þeirra í byrjunarliðinu. Hann lék báða leiki Íslands gegn Indónesíu í janúar og á fimm A-landsleiki að baki en er ekki í 29 manna hópnum sem Heimir Hallgrímsson valdi fyrir leikina gegn Mexíkó og Perú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert