Förum á HM til að reyna að vinna

Ikechukwu Ezenwa.
Ikechukwu Ezenwa. Ljósmynd/FIFA

Ikechukwu Ezenwa, markvörður nígeríska landsliðsins í knattspyrnu sem verður mótherji Íslendinga á HM í Rússlandi, segir að Nígería stefni á að vinna heimsmeistaratitilinn.

Nígería hefur aldrei komist lengra en í 16-liða úrslitin í úrslitakeppni HM en Nígería er á leið á sitt sjöunda heimsmeistaramót í sumar.

„Við stefnum á að komast eins langt og hægt er, í undanúrslitin eða úrslitin og ég held að það sé draumur hvers leikmanns í okkar liði,“ segir Ezenwa í viðtali við fótboltavefinn goal.com.

„Þegar þú ferð á mót þá ertu með metnað til að vinna titilinn og með aðstoð guðs þá eru allir hlutir mögulegir.“

Argentína hefur verið andstæðingur Nígeríu á HM í fimm af sex heimsmeistaramótum og þjóðirnar eigast við í lokaumferð riðlakeppninnar.

„Vanalega höfum við mætt Argentínu í fyrsta leik en nú hefur það snúist við. En þetta snýst ekki um að mæta Argentínumönnum í síðasta leik heldur að vinna tvo fyrstu leikina á móti Króatíu og Íslandi og komast þar með áfram,“ segir hinn 29 ára gamli Ezenwa.

Ísland og Nígería mætast í Volgograd þann 22. júní.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert