Áratuga bið næstu andstæðinga Íslands á enda

Pérumaðurinn Jefferson Farfan (t.h.) í baráttunni við Króatann Mateo Kovacic. …
Pérumaðurinn Jefferson Farfan (t.h.) í baráttunni við Króatann Mateo Kovacic. Íslendingar mæta þeim báðum á næstunni; Perú næsta miðvikudag og Króatíu á HM í sumar. AFP

Íslenska karla­landsliðið í knatt­spyrnu þarf að hafa varan á sér á miðvikudaginn kemur þegar það mætir Perú í seinni vináttulandsleik sínum í Bandaríkjunum.

Perúmenn voru nefnilega að vinna Króatíu í nótt, 2:0, og var það þeirra fyrsti sigur gegn evrópsku liði í nær tvo áratugi.

Króatar verða þriðji og síðasti andstæðingur Íslands í D-riðli heimsmeistaramótsins í Rússlandi í sumar en þeir urðu að lúta í lægra haldi fyrir Perúmönnum sem mæta nágrönnum okkar í Danmörku í fyrsta leik C-riðilsins í sumar.

Andrew Carrillo og Edison Flores skoruðu mörkin sem tryggðu Perú þennan fyrsta sigur gegn Evrópuríki síðan sigur vannst á Slóvakíu árið 1999.

Erfið nótt Evrópu að baki

Ísland og Króatía voru ekki einu Evrópuþjóðirnar sem lentu í erfiðleikum með suður-ameríska andstæðinga síðastliðinn sólarhring. Frakkar mættu Kólumbíu í Sviss í gærkvöldi og virtust ætla að hafa það náðugt eftir að Olivier Giroud og Thomas Lemar skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins.

Luis Muriel og Radamel Falcao jöfnuðu þó metin fyrir Kólumbíu áður en Juan Quintero innsiglaði ótrúlega endurkomu með sigurmarki sínu á 85. mínútu. Grútsvekktur Didier Deschamps, þjálfari Frakka, ásakaði eigin leikmenn um hroka eftir leikinn.

Undirbúningur gestgjafa heimsmeistaramótsins fór ekki sérlega vel af stað þegar Rússar mættu sigursælustu þjóð HM frá upphafi, Brasilíu.

Leikurinn, sem fór fram í Hvíta-Rússlandi, var eign Brasilíumanna frá upphafi til enda og þó fyrri hálfleikurinn var markalaus áttu stíflurnar eftir að bresta. Joao Miranda, Philippe Coutinho og Paulinho skoruðu allir eitt mark á fyrstu 20 mínútum síðari hálfleiks til að tryggja öruggan og sanngjarnan sigur.

Að lokum þurftu Pólverjar að játa sig sigraða á heimavelli gegn Nígeríu í gærkvöldi en Chelsea-maðurinn Victor Moses gerði eina mark leiksins eftir um klukkutíma leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert