Usain Bolt á langt í land

Usain Bolt á æfingu Dortmund.
Usain Bolt á æfingu Dortmund. AFP

Usain Bolt, einn sig­ur­sæl­asti frjálsíþróttamaður sög­unn­ar, lagði hlaupaskónna á hilluna eftir heims­meist­ara­mótið í London í fyrra og æfir nú með knattspyrnuliði Dortmund í Þýskalandi.

Bolt hefur lengi látið sig dreyma um atvinnumennsku í knattspyrnu og daðraði lengi vel við sitt uppáhalds félag, Manchester United, í fjölmiðlum.

Þessi 31 árs kappi, sem er átt­fald­ur ólymp­íu­meist­ari, á þó nokkuð í land með að láta drauminn verða að veruleika ef marka má orð knattspyrnustjóra þýska liðsins, Peter Stöger.

„Þetta snýst um aðferð, verklag og hreyfingu. Ég held að hann [Bolt] sé hæfileikaríkur en ef hann vill spila knattspyrnu á hæsta stigi, þá á hann langt í land,“ sagði Stöger sem þó hafði mjög gaman af nærveru Jamaíkumannsins.

„Það sem skiptir máli er að hann skemmti sér vel og það var gaman fyrir okkur að hafa hann, það er frábært að fá að hitta íþróttamann eins og hann og vinna með honum.

Þó Bolt fái ekki samning við Dortmund fær hann draum uppfylltan í sumar þegar hann spilar fót­bolta­leik á Old Trafford heima­velli Manchester United en hann mun taka þátt í góðgerðarleik á veg­um UNICEF. Bolt verður í heimsliðinu sem spil­ar á móti úr­valsliði Eng­lands. Í liðunum verða fræg­ar kemp­ur en þar má nefna menn eins og tón­list­ar­mann­inn Robbie Williams og gömlu fót­bolta­hetj­urn­ar Ted­dy Sher­ing­ham, Luís Figo, Alan Shear­er, Paolo Di Canio og Franco Baresi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert