Sara í undanúrslitaleik gegn Chelsea

Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. Ljósmynd/Wolfsburg

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, og stöllur hennar í þýska meistaraliðinu Wolfsburg eru komnar til London þar sem þær mæta Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu síðdegis í dag.

Þetta er fyrri viðureign liðanna og annað árið í röð sem þau mætast í Meistaradeildinni. Í fyrravetur vann Wolfsburg 4:1 samanlagt í 32ja liða úrslitum þar sem Sara skoraði glæsilegt jöfnunarmark í seinni leiknum, 1:1.

Chelsea hefur vegnað betur í vetur. Liðið er efst í ensku úrvalsdeildinni og búið að slá Bayern München, Rosengård og Montpellier út úr Meistaradeildinni. Sara og félagar hafa á meðan sigrast á Atlético Madrid, Fiorentina og Slavia Prag, og farið heldur léttari leið. Sara hefur verið á skotskónum í keppninni í vetur og er komin með fimm mörk í Meistaradeildinni á meðan hún hefur „aðeins“ skorað þrjú mörk í þýsku deildinni.

Wolfsburg er með þrjá stóra titla í sigtinu en liðið getur enn unnið tvöfalt heima í Þýskalandi. Wolfsburg er með þriggja stiga forskot á Bayern München og á leik til góða þegar eftir eru sex umferðir af deildinni. Þá er liðið komið á ný í úrslitaleik bikarkeppninnar og mætir þar Bayern München 19. maí.

Leikið á Kingsmeadow í London

Leikur Chelsea og Wolfsburg í dag fer fram á Kingsmeadow-leikvanginum í suðvesturhluta London en það er sameiginlegur heimavöllur kvennaliðs Chelsea og karlaliðs Wimbledon. Hann tekur ríflega fimm þúsund áhorfendur. Rúmlega 3.000 manns sáu þar heimaleik Chelsea gegn Montpellier í átta liða úrslitunum.

Í hinu einvígi undanúrslitanna eigast við Manchester City og Evrópumeistararnir í Lyon frá Frakklandi en þetta er í fyrsta sinn sem tvö ensk lið komast í undanúrslit keppninnar.

Wolfsburg freistar þess að komast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fjórða sinn á sex árum. Félagið varð Evrópumeistari 2013 og 2014 en tapaði fyrir Lyon í úrslitaleik keppninnar 2016.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert