Við höfum Lewandowski

Robert Lewandowski.
Robert Lewandowski. AFP

Jupp Heynckes, þjálfari þýska meistaraliðsins Bayern München, segir að Real Madrid ætti að hafa jafnmiklar áhyggjur af Robert Lewandowski og Bayern af Cristiano Ronaldo en Bayern München tekur á móti Evrópumeisturum Real Madrid í fyrri rimmu liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld.

„Cristiano hefur átt ótrúlegan feril en við höfum Robert Lewandowski, sem hefur skorað 39 mörk á leiktíðinni. Svo spurningin ætti að vera: Hver á að stöðva hann?“ sagði Heynckes á fréttamannafundi í gær.

Heynckes er ekki alveg ókunnugur Real Madrid en hann gerði liðið að Evrópumeisturum árið 1998 eftir 32 ára bið Madridarliðsins eftir Evrópumeistaratitlinum. Átta dögum síðar var hann rekinn úr starfi en Real Madrid hafnaði í 4. sæti í spænsku deildinni þetta tímabilið.

Þetta verður í 25. sinn sem Bayern München og Real Madrid eigast við í Evrópuleik en liðin hafa unnið 11 leiki hvort í þessum viðureignum. Og þetta er í þriðja sinn frá tímabilinu 2011-12 sem þau eigast við í undanúrslitum. Bæjarar höfðu betur 2011-12 en Real Madrid 2013-14.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert