Er hvergi nærri búið

Leikmenn Real Madrid fagna marki í gærkvöld.
Leikmenn Real Madrid fagna marki í gærkvöld. AFP

Zinedine Zidane þjálfari Real Madrid segir að einvíginu gegn Bayern München í undanúrslitum Meistaradeildarinnar sé hvergi nærri lokið þrátt fyrir 2:1 útisigur í gærkvöld.

Með sigrinum tók Real Madrid skrefið nær þriðja Evrópumeistaratitlinum í röð en Zidane er minnugur heimaleiksina á móti Juventus í átta liða úrslitunum þar sem minnstu mátti muna að Juventus tækist að slá Evrópumeistarana úr leik.

„Við þurfum svo sannarlega að berjast í seinni leiknum. Þetta er hvergi nærri búið og leikurinn á móti Juventus er gott dæmi um það. Við þurfum að mæta Bayern með öðrum hætti á heimavelli og vera klárir í slaginn. Ef ekki þá gæti illa farið,“ sagði Zidane eftir sigur sinna manna.

„Við getum verið ánægðir með úrslitin. Við áttum erfitt til að byrja með en það er ekki auðvelt að koma hingað og uppskera sigur. Ég veit að við getum gert betur en við sýndum í þessum leik en úrslitin voru fín fyrir okkur,“ sagði Zidane.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert