Enn vinnur KR ekki í Grafarvogi

Þórir Guðjónsson í baráttunni við nokkra KR-inga í Grafarvoginum í …
Þórir Guðjónsson í baráttunni við nokkra KR-inga í Grafarvoginum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjölnir og KR gerðu 1:1-jafntefli á Extra-vellinum í 5. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. KR bíður enn eftir fyrsta sigrinum í Grafarvoginum síðan 2010.

Það voru gestirnir úr Vesturbænum sem hófu leikinn af krafti og tókst nokkrum sinnum að reyna á Þórð Ingason í marki Fjölnis en án árangurs. Það voru hins vegar Fjölnismenn sem skoruðu fyrsta og eina mark fyrri hálfleiksins. Boltinn hrökk þá til Arnórs Breka Ásþórssonar eftir hornspyrnu og hann skoraði úr viðstöðulausu, föstu skoti utan teigs sem skoppaði yfir Beitir Ólafsson í marki KR.

KR-ingar voru þó ekki lengi að jafna metin í síðari hálfleik eftir slæm mistök Mario Tadejevic í vörn Fjölnis. Króatinn átti þá afleita snertingu í vörninni sem sleppti Björgvini Stefánssyni einum í gegn. Tadejevic hafði því ekki annarra kosta völ en að brjóta á framherjanum og gefa vítaspyrnu. Pálmi Rafn Pálmasson steig á punktinn og skoraði örugglega.

Eftir þetta voru heimamenn mikið nær því að kreista fram sigurmarkið en allt kom fyrir ekki og urðu liðin því að sættast á eitt stig hvort.

Fjölnir 1:1 KR opna loka
90. mín. Fjórar mínútur í uppbótartíma. KR-ingar hafa verið slakir í kvöld.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert